Háskóli Íslands

Réttarefnafræðilegar rannsóknir

Rannsóknir á sýnum úr réttarkrufningum

Við réttarkrufningar tekur réttarlæknir sýni úr líffærum hins látna þegar hann telur þörf á að leitað sé að lyfjum, ávana- og fíkniefnum eða eiturefnum.

Þetta er einkum gert ef grunur leikur á að eitrun hafi átt þátt í dauða hins látna. Enn fremur eru dauðsföll af ýmsum öðrum toga (s.s. sjálfsvíg og slys) tekin til réttarefnafræðilegrar rannsóknar, þegar hugsanlegt er talið, að tilvist áfengis, lyfja eða annarra efna geti veitt nánari skýringu á aðdraganda þeirra.

Tafla I sýnir dauðsföll sem rannsóknir bentu til að gætu verið af völdum eitrana á tímabilinu 2005-2009.

Rannsóknir á blóð- og þvagsýnum vegna gruns um saknæmt athæfi, s.s. umferðarlagabrot.

Með heimild í 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 geta lögregluyfirvöld farið fram á að einstaklingar, sem grunaðir eru um brot á lögunum láti í té líkamssýni (blóðsýni, þvagsýni o.fl.) til ákvörðunar á etanóli, lyfjum eða ávana- og fíkniefnum.  Svipuð ákvæði er einnig að finna í 92. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þegar um annars konar brot er að ræða.  Skv. umferðalögum er óheimilt að aka undir áhrifum lyfja eða ávana- og fíkniefna.  Í öðrum sakamálum getur reynst nauðsynlegt að afla upplýsinga um hvort sakborningur hafi verið undir áhrifum áfengis, lyfja eða ávana- og fíkniefna þegar brotið var framið.

Undanfarin ár hafa flest sýni, sem komið hafa til rannsóknar, verið vegna meintra umferðarlagabrota.

Mynd I sýnir hlutfallslega þróun fimm algengustu efnaflokkanna sem mældust í blóði ökumanna á Íslandi árin 2004 - 2009.

Rannsóknir á ávana- og fíkniefnum sem lögreglu- eða tollayfirvöld hafa lagt hald á

Á hverju ári koma til rannsóknar fjölmörg sýni af ávana- og fíkniefnum, sem lögreglu- og tollayfirvöld hafa lagt hald á.  Með ávana- og fíkniefnum er hér fyrst og fremst átt við efni, sem óheimil eru á íslensku yfirráðasvæði, sbr. 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni með síðari breytingum.

Einnig hafa komið til rannsóknar ýmis önnur efni, svo sem vefaukandi sterar, fæðubótarefni o.fl.

Tafla II sýnir efnissýni, sem komu til rannsóknar árin 2005 - 2009.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is